Ferill 469. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 514  —  469. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um afstöðu Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.


Frá utanríkismálanefnd.


    Alþingi ályktar að án tafar skuli komið á vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza-svæðinu svo tryggja megi öryggi almennra borgara, jafnt palestínskra sem ísraelskra. Alþingi fordæmir öll ofbeldisverk sem beinast gegn almennum borgurum í Palestínu og Ísrael. Alþingi krefst þess að alþjóðalögum sé fylgt í einu og öllu í þágu mannúðar, öryggis almennra borgara og verndar borgaralegra innviða.
    Alþingi fordæmir hryðjuverkaárás Hamasliða á almenna borgara í Ísrael sem hófst 7. október 2023. Alþingi fordæmir sömuleiðis allar aðgerðir ísraelskra stjórnvalda í kjölfarið sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum, þ.m.t. óheyrilega þjáningu, manntjón, mannfall almennra borgara og eyðileggingu borgaralegra innviða. Brýnt er að öll brot stríðandi aðila á alþjóðalögum verði rannsökuð til hlítar.
    Alþingi kallar eftir mannúðlegri meðferð á og tafarlausri lausn gísla, aðgengi hjálpar- og mannúðarsamtaka og að neyðarvistum og læknisaðstoð verði komið til almennings tafarlaust.
    Alþingi felur ríkisstjórninni að beita sér fyrir viðbótarframlagi til mannúðaraðstoðar og rannsóknar á brotum á alþjóðalögum til að fylgja eftir þeim áherslum sem fram koma í ályktun þessari.

Greinargerð.

    Hinn 27. október sl. afgreiddi allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fyrstu ályktun þingsins frá því að átök brutust út á milli Hamas og Ísraels í kjölfar hryðjuverkaárásar Hamas þann 7. október sl. Ályktunin var lögð fram af Jórdaníu fyrir hönd hóps arabaríkja. Kanada lagði fram breytingartillögu og studdi Ísland ályktun Jórdaníu að því gefnu að breytingartillaga Kanada næði fram að ganga, ásamt öllum ríkjum Evrópusambandsins, Noregi, Bretlandi, Ástralíu og Japan. Um breytingartillöguna náðist þó ekki nægjanleg samstaða á þinginu og sat Ísland hjá við afgreiðslu óbreyttrar ályktunar Jórdaníu.
    Með þingsályktunartillögu þessari vill utanríkismálanefnd tryggja að afstaða Íslands vegna yfirstandandi hörmunga sé skýr og njóti stuðnings allra flokka á Alþingi. Brýnt er að kallað verði eftir tafarlausu vopnahléi á átökum á svæðinu af mannúðarástæðum, að óhindrað aðgengi mannúðaraðstoðar verði tryggt og að verndun almennra borgara verði sett í forgang. Þá telur utanríkismálanefnd nauðsynlegt að brot á alþjóðalögum verði rannsökuð til hlítar. Því er mikilvægt að tryggja óháða og gagnsæja rannsókn á brotum í samræmi við alþjóðalög. Fyrirliggjandi þingsályktunartillaga byggist efnislega á tillögu Jórdaníu og breytingartillögu Kanada fyrir allsherjarþinginu.
    Utanríkismálanefnd vill með tillögu þessari leggja áherslu á nauðsyn þess að óbreyttir borgarar njóti verndar í samræmi við alþjóðalög um mannúð og mannréttindi og harmar gríðarlega þjáningu, manntjón og mannfall almennra borgara, eyðileggingu heimila og innviða sem verður að stöðva.
    Utanríkismálanefnd lýsir yfir þungum áhyggjum af ástandinu, sérstaklega á Gaza-svæðinu, og hörmulegum afleiðingum þess og lýsir yfir eindregnum stuðningi við áköll um tafarlausan og óheftan aðgang mannúðaraðstoðar til að tryggja grunnþarfir palestínskra borgara. Þá vilja flutningsmenn lýsa yfir stuðningi sínum við allar friðsamlegar aðgerðir sem miða að stöðvun stríðsátaka fyrir botni Miðjarðarhafs í því skyni að tryggja vernd óbreyttra borgara og veita mannúðaraðstoð.
    Utanríkismálanefnd ítrekar mikilvægi þess að allir hlutaðeigandi aðilar fylgi skuldbindingum sínum á grundvelli alþjóðalaga, sér í lagi er varðar vernd óbreyttra borgara og borgaralegra innviða, auk verndar hjálparstarfsfólks, óvígfærra einstaklinga og annarra sem eru hjálparþurfi. Nefndin telur nauðsynlegt að tafarlaus aðgangur að nauðsynjavörum verði tryggður og að óhindraður aðgangur stofnana Sameinuðu þjóðanna og annarra hjálparstofnana verði tryggður.
    Þá leggur utanríkismálanefnd áherslu á mikilvægi þess að komið verði í veg fyrir frekari stigmögnun átaka og ofbeldis á svæðinu ásamt því að ítreka að réttlátri og varanlegri lausn á deilu Ísraelsmanna og Palestínumanna verður aðeins náð með friðsamlegum hætti í samræmi við alþjóðalög og á grundvelli tveggja ríkja lausnar.